Enski boltinn

Benjani er leikmaður 23. umferðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benjani fagnar einu þriggja marka sinna gegn Derby með David Nugent.
Benjani fagnar einu þriggja marka sinna gegn Derby með David Nugent. Nordic Photos / Getty Images

Benjani skoraði þrennu í leik Portsmouth og Derby í ensku úrvalsdeildinni um helgina og hlaut útnefninguna leikmaður 23. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar.

Smelltu hér til að skoða myndband af leikmanni umferðarinnar. 

Benjani hefur nú skorað tólf mörk á þessu tímabili en fyrir tímabilið ætlaði hann sér að skora tíu til fimmtán mörk. Hann hefur nú endurskoðað þá markmiðssetningu.

„Ég held að ég hafi tíma til að skora 20 mörk. Að ná 20 mörkum í ensku úrvalsdeildinni væri stórkostlegt,“ sagði hann.

Benjani er frá Zimbabwe sem komst ekki í úrslit Afríkueppninnar sem fer fram þessa dagana í Gana, Harry Redknapp sjálfsagt til mikillar gleði.

„Það var frábært að sjá þessi mörk hjá Benjani,“ sagði Redknapp. „Þetta er frábær drengur. Hann kvartar aldrei og er alveg grjótharður. Hann spilar þótt hann sé meiddur og er gríðarlega vinnusamur.“

Þótt ótrúlega megi virðast var það Arsene Wenger sem mældi með Benjani við Harry Redknapp á sínum tíma en Benjani hefur verið hjá Portsmouth í slétt tvö ár.

Hann er fyriliði landsliðs síns og er þriðji leikmaðurinn frá Zimbabwe sem leikur í ensku úrvalsdeildinni. Hinir eru markvörðurinn goðsagnakenndi Bruce Grobbelaar og Peter Ndlovu sem lék með Coventry, Birmingham og Sheffield United.

Benjani lék í fjögur ár með Auxerre í Frakklandi og árið 2003 varð hann fyrsti leikmaðurinn frá Zimbabwe til að spila í Meistaradeild Evrópu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×