Innlent

Lítil rúta lagðist á smábíl í dýrvitlausu veðri á Kjalarnesi

Veður er farið að lægja á suðvesturhorni landsins eftir illviðri gærkvöldsins og næturinnar. Nokkuð annríki hefur verið hjá björgunarsveitum, mest á Suðurnesjum þar sem girðingar, þakplötur og sólhýsi hafa fokið og bátar losnað frá bryggju.

Fram kemur á vef Landsbjargar að Tjaldanesið hafi rekið upp í fjöru í Njarðvík en búið er að koma skipinu aftur að bryggju. Í Keflavíkurhöfn fór bátur á hliðina og sökk skömmu síðar. Beðið er hagstæðarin sjávarfalla svo hægt sé að ná honum upp. Í Vestmannaeyjum er stórt þak að losna af Netagerð Ingólfs og vinnur nú allt tiltækt lið við að festa það.

Þá hefur verið dýrvitlaust veður á Kjalarnesi. Þar fauk vöruflutningabíll á hliðina og lítil rúta lagðist á hliðina og á smábíl. Ekki urðu slys á fólki.

Samhæfingastöð Almannavarna var mönnuð laust fyrir miðnætti og hafa björgunarsveitir víða verið kallaðar út vegna foks og leka.

Nokkur flutningaskip liggja í vari inni á Faxaflóa, þar af eitt sem sneri við eftir að hafa reynt að sigla fyrir Reykjanesið í gærkvöldi.

Víða er mikið snjófarg á húsþökum og eru nokkur dæmi þess að snjórinn hafi rifið með sér þakkanta þegar hann hefur runnið niður í hlákunni. Sumstaðar hafa þök líka farið að leka og dæmi eru um að niðurföll hafi stíflast og vatn komist inn í kjallara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×