Enski boltinn

Liverpool - Aston Villa í kvöld

Elvar Geir Magnússon skrifar
Framtíð Benítez er í mikilli óvissu.
Framtíð Benítez er í mikilli óvissu.

Klukkan 20:00 hefst leikur Liverpool og Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Sýn 2. Bæði lið hafa 39 stig og sitja í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar.

Rafael Benítez getur stillt upp sínu sterkasta liði fyrir utan það að hinn danski Daniel Agger er enn á meiðslalistanum. Svo gæti farið að varnarmaðurinn Martin Skrtel muni leika sinn fyrsta leik fyrir félagið.

Stuart Taylor verður í marki Aston Villa þar sem Scott Carson er ólöglegur en hann er á lánssamningi hjá Villa frá Liverpool. Gareth Barry á við smávægileg meiðsli að stríða fyrir leikinn.

„Við megum ekki vera að spá í því hvað toppliðin eru að gera. Við verðum að hugsa út í okkar leiki. Við eigum eftir að mæta Chelsea, Manchester United og Arsenal svo við eigum enn möguleika á að minnka bilið," segir Benítez.

Skipulögð mótmæli fara fram fyrir leikinn þar sem stuðningsmenn Liverpool ætla að mótmæla bandarísku eigendunum Tom Hicks og George Gillett og þeirri stefnu sem félagið er að taka undir þeirra stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×