Innlent

Kalla eftir lækkun á eldsneyti

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FíB.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FíB. MYNd/GVA

Félag Íslenskra Bifreiðaeigenda undrast seinagang olíufélaganna við að lækka eldsneytisverðið þrátt fyrir lækkanir á heimsmarkaði. Í frétt á heimasíðu samtakanna segir að Olíufélögin hafi verið skjót að taka við sér þegar verðið hækkaði í byrjun janúar. Nú þegar verðið hefur lækkað um 100 bandaríkjadali á hvert tonn af bensíni bólar hins vegar ekkert á lækkunum.

„Þann 3. janúar sl. þegar umrædd hækkun varð hér á landi var heimsmarkaðsverðið á bensíni í 874 Bandaríkjadölum tonnið," segir í fréttinni. „Í dag, 17. janúar, nákvæmlega tveimur vikum síðar, er bensíntonnið á heimsmarkaði komið niður í 774 Bandaríkjadali. Íslenska krónan hefur vissulega verið að veikjast á sama tíma en uppreiknað í kostnað á hvern lítra miðað við gengið þann 3. janúar og aftur í gær, þá hefur kostnaðarverð á hvern lítra lækkað um ríflega 3 krónur."

Þá er bent á að dísilolían hafi á sama tímabili lækkað um 2,50 krónur á hvern lítra, að teknu tilliti til gengis krónunnar. „Eðlilegt er því nú að spyrja hvað það er sem tefur íslensku olíufélögin?," segja FÍB menn og bæta við:

„Við síðustu verðhækkun héldu talsmenn þeirra því fram að eðlilega væri útsöluverðið hér í samræmi við kostnaðarverð á heimsmarkaði. Telja stjórnendur olíufélaganna þá að það eigi bara við þegar heimsmarkaðsverð hækkar en alls ekki þegar það lækkar?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×