Innlent

Svanfríður bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð út kjörtímabilið

Samkomulag hefur tekist á milli framsóknarmanna og J-lista í Dalvíkurbyggð um að Svanfríður Jónasdóttir verði bæjarstjóri út kjörtímabilið. Þetta kemur fram á vef Dalvíkurbyggðar.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 á sunnudag að meirihlutasamstarf listanna væri í hættu vegna ákvæðis í sáttmála þeirra um að Svanfríður yrði aðeins bæjarstjóri hálft kjörtímabilið. Almenn ánægja hefur verið með störf Svandfríðar og því þótti kyndugt að hún ætti að víkja í vor og auglýsa ætti eftir nýjum bæjarstjóra.

Nú hefur hins vegar tekist samkomulag milli framsóknarmanna og J-lista um að Svanfríður sitji út kjörtímabilið og að Hilmar Guðmundsson, fulltrúi Framsóknarflokksins, verði forseti bæjarstjórnar og Bjarnveig Ingvadóttir flokkssystir hans formaður bæjarráðs.

„Á næstu dögum verður gengið frá nýjum samstarfssamningi á milli aðila sem byggir m.a. á því ágæta starfi sem verið hefur á fyrri hluta kjörtímabilsins og þeim metnaði fyrir hönd sveitarfélagsins sem einkennt hefur störf meirihlutans til þessa," segir á vef Dalvíkurbyggðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×