Innlent

Icelandair rukkar fyrir matinn

sev skrifar
Farþegum Icelandair mun framvegis standa til boða að kaupa sér mat um borð í vélum félagsins. Flugfélagið kynnti í dag ýmsar nýjungar um borð í vélum sínum. Þar á meðal er nýtt farrými, nýir búningar og ný tónlist í vélunum. Þá hefur frá því í vor verið unnið að því að endurnýja innréttingar og afþreyingarkerfi, og er því ferli að ljúka.

Meðal nýjunganna er að farþegar geta keypt sér mat um borð í vélunum. Á almennu farrými stendur valið á milli þriggja til fjögurra mismunandi rétta.

Steinunn Sigurðardóttir hönnuður hannaði nýju búningana og sækir hún innblástur í íslenska náttúru og sögu flugfélagsins. Þeir Einar Örn Benediktsson, Curver Thoroddsen, Finnbogi Pétursson og Skúli Sverrisson sömdu tónlistina sem byggir á íslenskum náttúruhljóðum.

Nýja farrýmið, Economy-Comfort, er staðsett milli SagaClass og almenns farrýmis og stendur farþegum til boða frá og með morgundeginum. Það er með sömu sætum og á almennu farrými, en einungis er selt í fjögur sæti af sex í hverri sætaröð.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að breytingarnar byggi allar á einu meginatriði, að leggja áherslu á sérstöðu Icelandair sem Íslensks flugfélags.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×