Innlent

Bankaleynd ekki skálkaskjól

 Björgvin G Sigurðsson
Björgvin G Sigurðsson MYND/Pjetur

„Hugtakið bankaleynd má ekki verða skálkaskjól," segir Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra.

Hann segir það blasa við að sumt falli þar undir en annað ekki. Hann nefnir sem dæmi að bankaleynd sé aflétt í væntanlegum lögum um sérstakan saksóknara og rannsóknarnefnd sem eigi að skoða bankahrunið.

Bankarnir og Fjármálaeftirlitið hafa ítrekað neitað að veita almenningi upplýsingar á grundvelli bankaleyndar. Kaupþing hefur raunar vísað til þess að tveggja ára fangelsi liggi við brotum á bankaleynd og Glitnir hefur kært Morgunblaðið til Fjármálaeftirlitsins fyrir að birta upplýsingar úr lánabókum gamla Glitnis.

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar Alþingis, hafa allir sagt að bankaleynd eigi ekki við þegar upplýsa þurfi um hrun bankanna.

Björgvin er spurður hvort eðlilegt sé að menn rjúfi bankaleynd til að hagnast á því persónulega eða fyrir hönd þess fyrirtækis sem þeir starfa hjá. „Nei, það getur varla talist það." En ættu slíkir menn að starfa hjá fjármálafyrirtækjum? „Ég get ekki fellt dóm um það í sjálfu sér, það hlýtur að verða að skoðast í hverju tilviki fyrir sig.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, var bankastjóri Búnaðarbankans árið 2003, þegar Fjármálaeftirlitið ávítaði bankann fyrir brot á bankaleynd.

„Ég er ekki dómari og ætla ekki að dæma um þetta mál," segir Björgvin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×