Lífið

Skólastjóri fórnarlamb vinnustaðahrekks

Leifur Garðarsson, skólastjóri Áslandsskóla og þjálfari Fylkis.
Leifur Garðarsson, skólastjóri Áslandsskóla og þjálfari Fylkis.

"Það var bara djók í gangi," segir Leifur S. Garðarsson skólastjóri Áslandsskóla í Hafnarfirði. Meðan Leifur grillaði handa starfsfólki skólans var bíllinn hans vakúmpakkaður á bílastæðinu.

"Ég var nú bara að grilla kjúklingabringur oní liðið," segir Leifur og hlær. "Á meðan hefur einhver laumast að bílnum og pakkað honum inn!"

Auk þess að vera skólastjóri Áslandsskóla er Leifur einnig þjálfari meistaraflokksliðs Fylkis í knattspyrnu. Í gær tapaði Fylkir á dramatískan hátt fyrir Þrótti. Sigurmarkið kom á lokasekúndum leiksins.

"…það er rétt, manni er ekki sýnd nein miskunn," segir Leifur en tekur fram að grallararnir muni án efa fá að borga fyrir hrekkinn. "Þeir fá þetta tvöfalt til baka. Maður byrjaður að teikna upp aðgerðaráætlun."

Bíll Leifs var vakúmpakkaður á bílastæðinu.

Engin illindi lágu að baki bílahrekknum heldur virðist góðlátlegt grín hefð hjá starfsfólki Áslandsskólans. Leifur rifjar upp að eitt sinn hafi skrifstofan hans verið þakin í Liverpool drasli en hann þoli ekki það lið "og þegar ég varð fertugur var hún máluð í Fylkislitunum".

"Það er bara frábær starfsandi hérna og svona atburðir lífga upp á hversdagsleikann," segir þjálfarinn síhressi sem þurfti að "brjótast" inn í bílinn sinn eftir vel heppnaða grillveislu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.