Innlent

Segir forystuna samstíga í Evrópumálum

Geir Haarde segir forystu Sjálfstæðisflokksins samstíga í afstöðu til Evrópumála, en varaformaður flokksins vill að Evrópusambandsaðild og upptaka Evru verði tekin til alvarlegrar skoðunar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að hún teldi tímabært að skoða alvarlega inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evrunnar. Evrópumálin hafa til þessa ekki verið á dagskrá Sjálfstæðisflokksins nema hjá þröngum hópi fólks.

Forsætisráðherra boðaði til fundar með blaðamönnum í Ráðherrabústaðnum í dag þar sem hann fór yfir málefni síðustu daga. Þar sagði hann meðal annars að málefni Icesave í Bretlandi hefðu skapað einhverja erfiðustu milliríkjadeilu sem upp hefði komið hér á síðustu árum.

Geir sagði forystumenn bankanna bera ábyrgð á því að sú starfsemi hefði farið af stað og jafnframt að deila mætti um hvort áhættu vegna þessara reikninga hefði mátt taka, en augljóst væri að þarna væri gat í tilskipun Evrópusambandsins um banka- og fjármálastarfsemi.

Þá kvað hann menn sem bera ábyrgð á þessum reikningum reyna að koma henni yfir á aðra, en vildi ekki svara því hvort hann ætti við Björgólf Thor Björgólfsson í því sambandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×