Innlent

Uppsagnir í takti við það sem búist var við

„Þetta er auðvitað áfall, en í ljósi aðstæðna kannski sú tala sem við bjuggumst við," segir Anna Karen Hauksdóttir, formaður starfsmannafélags Glitnis. 97 starfsmenn gamla Glitnis misstu vinnuna í kjölfar þess að Nýi Glitnir tók til starfa í dag.

„Við vonuðumst til að þetta yrði ekki meira en hundrað því störfum hefur fækkað um 250 síðustu misserin," segir Anna. Að hennar sögn eru þeir sem missa vinnuna nú flestir úr deildum sem tengdust erlendri starfsemi bankans, verðbréfa- og hlutabréfaviðskiptum.

„En svo eru keðjuverkandi áhrif þannig að fólk sem unnið hefur í bakvinnslu fyrir slíka starfssemi missir einnig vinnuna." Anna segir að starfsfólkinu hafi verið lofað að ákvæði kjarasamninga verði uppfyllt í einu og öllu og að fólkið njóti fullra launa samkvæmt kjarasamningum út uppsagnartímann, sem er annað hvort þrír eða sex mánuðir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×