Erlent

Forseti Súdans lýsir yfir vopnahléi í Darfur-héraði

MYND/AP

Omar al-Bashir, forseti Súdans, tilkynnti í morgun um vopnahlé í hinu stríðshrjáða Darfur-héraði sem taka myndi gildi strax og yrði skilyrðislaust.

Þar hafa uppreisnarmenn tekist á við stjórnarherinn og arabískar vígasveitir sem sagðar eru njóta stuðnings stjórnvalda. Bashir tilkynnti hins vegar í morgun að vopnahléð væri háð því að eftirlitsveitir og friðargæsla tæki til stafa. Unnið yrði að því að afvopna herskáa hópa.

Ákvörðun um vopnahlé var tekin á sérstökum samráðsvettvangi ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar en uppreisnarmenn í Darfur hafa sniðgengið hann.

Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur sakað Bashir um stríðsglæpi í Darfur með því að styðja hinar arabísku Janjaweed-vígasveitir sem farið hafa um héraðið og myrt fólk. Talið er að allt að 300 þúsund hafi lástist og tvær milljónir manna flúið heimili sín á síðustu fimm árum vegna átakanna í Darfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×