Innlent

Ólafur: Hanna Birna notaði gróusögur gegn mér

Hanna Birna tekur við lyklum af borgarstjóraskrifstofunni úr hendi Ólafs 21. ágúst sl.
Hanna Birna tekur við lyklum af borgarstjóraskrifstofunni úr hendi Ólafs 21. ágúst sl.

Ólafur F. Magnússon segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir, núverandi borgarstjóri, hafi þrýst á sig að segja af sér sem borgarstjóri vegna gróusagna um persónu hans.

Á löngum fundi Ólafs og Hönnu Birnu í Ráðhúsinu daginn áður en Sjálfstæðisflokkurinn sleit meirihlutasamstarfi flokkanna þrýsti Hanna Birna á Ólaf að segja af sér, að hans sögn. ,,Hún byrjaði fundinn á því að tala um gróusögur og það fannst mér með eindæmum lágkúrulegt. Hún nefndi hluti sem voru jafnvel grófari og meira út í hött heldur en höfðu verið í fjölmiðlum og þótti mér þó nóg um," segir Ólafur.

Ólafur segir að aðilar innan Sjálfstæðisflokksins hafi nærst á þessum gróusögum. ,,Svo virðast sem að þeir hafi einnig verið virkir þátttakendur í að dreifa þeim og koma þeim á kreik."

,,Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fannst hennar tími vera komin og hún ákvað að slíta meirihlutasamstarfinu án málefnaágreinings svo hún gæti orðið borgarstjóri. Þetta er bara svona einfalt," segir Ólafur.

Ólafi þykir ódrengilegt og lágkúrulegt að Hanna Birna skuli hafa nýtt sér þessar sögur til að geta á auðveldan hátt svikið heitstrengingar sjálfstæðismanna um að þeir væru að fullri alvöru þátttakendur í samstarfinu.

Þá fullyrðir Ólafur að háttsettir aðilar, þar á meðal á fjölmiðlum, hafi annarsvegar unnið staðfastlega að meirihlutaslitum F-lista og Sjálfstæðisflokksins og hinsvegar að því að bola Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni frá og síðan sér svo Hanna Birna yrði borgarstjóri.

,,Vilhjálmur hefur sagt í mínu eyru að tíður leki úr borgarráði sem beindist meðal annars gegn honum var ekki eingöngu kominn eins og flestir halda frá pólitískum andstæðingum meirihlutans heldur einnig úr röðum samstarfsmanna hans í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins," segir Ólafur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×