Enski boltinn

Michael Ballack er leikmaður 36. umferðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Ballack, leikmaður Chelsea.
Michael Ballack, leikmaður Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Michael Ballack skoraði bæði mörk Chelsea í 2-1 sigri liðsins á Manchester United um helgina og er leikmaður 36. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar

Smelltu hér til að sjá myndband af Michael Ballack, leikmanni 36. umferðar.

Ballack stjórnaði miðjuspili Chelsea af miklu öryggi í toppslagnum gegn United um helgina í fjarveru Frank Lampard. Svo virðist reyndar að Ballack þrífist betur á vellinum þegar að Lampard er ekki að spila en fimm af þeim sex mörkum sem hann hefur skorað í deildinni í vetur hafa öll komið þegar Lampard var ekki á vellinum.

Hann skoraði dýrmætt sigurmark Chelsea í leiknum úr vítaspyrnu sem hann tók af miklu öryggi þegar skammt var til leiksloka. Sigur liðsins þýðir að liðin eru nú jöfn að stigum þegar tvær umferðir eru eftir en United er með mun betra markahlutfall.

Ballack var lengi fjarverandi í haust vegna meiðsla en hann skoraði í sínum fyrsta leik í deildinni í vetur, 4-4 jafntefli gegn Aston Villa á öðrum degi jóla. Þá kom hann reyndar inn á fyrir Lampard á 26. mínútu sem þurfti þá að fara af velli vegna meiðsla.

Síðan þá hefur hann komið við sögu í sextán leikjum af þeim átján sem Chelsea hefur spilað í deildinni, þar af fjórtán sinnum í byrjunarliðinu. Chelsea hefur ekki tapað leik í deildinni eftir áramót og unnið ellefu af þeim fjórtán þegar Ballack hefur verið í byrjunarliðinu. Niðurstaðan í hinum þremur var jafntefli, rétt eins og í báðum leikjunum þegar Ballack kom inn á sem varamaður.

Ferill Ballack er flestum vel kunnugur. Hann hefur verið lykilmaður í þýska landsliðinu um árabil og kom til Chelsea frá Bayern München árið 2006. Þar áður lék hann með Leverkusen árin 1999-2002 og fór með liðinu í úrslit Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili sínu hjá félaginu.

Með Bayern vann hann þrívegis tvöfalt - þýska meistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn - en hann náði aldrei að standa almennilega undir væntingum í leikjum Bayern í Meistaradeild Evrópu. Hann var oft gagnrýndur vegna þess, til að mynda af forráðamönnum félagsins.

Ballack átti erfitt uppdráttar á sínu fyrsta tímabili hjá Chelsea og sumir halda því fram að hann sé fyrst núna að ná sér almennilega á strik hjá þeim bláklæddu. Hann verður væntanlega í eldlínunni með Chelsea gegn Liverpool í síðari viðureign liðanna í Meistaradeildinni í kvöld.

Nafn: Michael Ballack

Fæddur: 26. september, 1976 í Görlitz í Saxlandi í Þýskalandi.

Félög: Kaiserslautern, Bayer Leverkusen, Bayern München og Chelsea.

Númer: 13

Lið vikunnar:

Markvörður: Marcus Hahnemann, Reading.

Vörn:

Danny Higginbotham, Sunderland

Ashley Cole, Chelsea

Joseph Yobo, Everton

Miðja:

Sebastian Larsson, Birmingham

Jermaine Pennant, Liverpool

Michael Ballack, Chelsea

Mark Noble, West Ham

Sókn:

John Carew, Aston Villa

Emmanuel Adebayor, Arsenal

Diomansy Kamara, Fulham



Fleiri fréttir

Sjá meira


×