Brasilíski framherjinn Ronaldo segist enn vera í viðræðum við Manchester City um að ganga í raðir félagsins. Forráðamenn City lýstu því yfir fyrir skömmu að viðræðum þessum hefði verið hætt.
"Það er möguleiki á því að ég fari til City. Þar er verið að byggja upp frábæra hluti með sterkum leikmönnum. Við erum í viðræðum við City í augnablikinu og verðum að sjá til hvað gerist," sagði Ronaldo í samtali við franska blaðið L´Equipe.
Framherjinn er samningslaus eftir að hafa verið á mála hjá AC Milan á Ítalíu, en hann hefur átt við afar erfið meiðsli að stríða síðustu misseri.
"Þetta hefur verið mikil áskorun, en ég elska fótbolta og er tilbúinn að fórna öllu til að fara aftur að spila. Ég hugsa að ég verði klár í slaginn eftir tvo til þrjá mánuði," sagði Ronaldo, sem verður 32 ára gamall í næstu viku.