Innlent

Leita til dómstóla ef vafi er á því hvort afhenda megi gögn

Höskuldur H. Ólafsson er forstjóri Valitors.
Höskuldur H. Ólafsson er forstjóri Valitors.

Valitor, umboðsaðili VISA á Íslandi, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að félagið leiti alltaf til dómstóla ef vafi leiki á því hvort félaginu sé heimilt að afhenda gögn til yfirvalda.

Hæstirréttur veitti um daginn ríkisskattstjóra heimild til þess að kalla eftir upplýsingum um greiðslukortanotkun efnafólks í viðskiptum hjá Valitor. Kanna átti hvort menn hefðu komið eignum eða tekjum undan skatti með því að flytja fjármagn eða fjármálaumsvif úr landi. Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær að hópur fólks hefði skotið undan tekjum samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum í athugun ríkisskattstjóra.

Valitor segir vegna þessara fregna að það sé meginregla hjá fyrirtækinu að berist beiðni um afhendingu gagna frá yfirvöldum, innlendum eða erlendum, og Valitor telji einhvern vafa leika á um hvort félaginu sé heimilt eða skylt að afhenda gögnin þá sé slíkum erindum synjað og dómstólum falið að skera úr. „VALITOR er háð skilyrðum laga í starfsemi sinni og vinnslu og meðhöndlar trúnaðarupplýsingar í samræmi við þau. Í því dómsmáli sem um ræðir var niðurstaða Hæstaréttar ekki einróma. Strax eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar voru ríkisskattstjóra afhent umbeðin gögn," segir í tilkynningu Valitors






Fleiri fréttir

Sjá meira


×