Aðgerðir Breta gagnvart Íslendingum eru stríðsaðgerðir, sagði Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, í Mannamáli í kvöld. Ögmundur sagði að með þessum aðgerðum sínum gagnvart Íslandi væru Bretar að skapa öðrum ríkjum fordæmi. Í Bretlandi starfi fjöldi banka frá öðrum ríkjum en Íslandi. Ögmundur sagði að það væri mikilvægt fyrir Íslendinga að skilgreina lagalegar og þjóðréttarlegar skuldbindingar og leggja þær að grundvelli í öllum samningaviðræðum við Breta.
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ábyrgðin á ástandinu í dag lægi víða. Aðspurður um hvaða ábyrgð sjálfstæðismenn bæru sagðist hann oft hafa varað við jöklabréfum og gagnkvæmu eignarhaldi í félögum sem skapaði meira eigið fé sem menn hefðu fengið lánað út á. Hann hefði oft varað við þessu en ábyrgð hans lægi kannski í því að hafa ekki talað meira um þetta.