Innlent

Réttarkerfið taki fast á árásum á lögreglumenn

Stefán Vagn Stefánsson.
Stefán Vagn Stefánsson.

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir lögreglu þar á bæ líta árás á lögreglumann í umdæminu aðfaranótt sunnudags mjög alvarlegum augum og vonast til þess að réttarkerfið taki fast á málinu.

Karlmaður réðst á lögregluþjón í lögreglubíl og beit í fingur hans þannig að litlu mátti muna að fingurinn færi í sundur. Hafði lögregla afskipti af manninum eftir að hann hafði orðið uppvís að alvarlegri líkamsárás fyrir utan skemmtistað á Sauðárkróki þar sem fórnarlambið lá meðvitundarlaust eftir.

Stefán Vagn segir að lögreglumaðurinn sem varð fyrir árásinni hafi það þokkalegt en hann hafi hlotið mjög slæmt sár á fingri. „Það munaði mjög litlu að hann missti fingurinn en það bjargaði honum að hann var í þykkum hönskum. En beinið í fingrinum brotnaði," segir Stefán um bitið.

Aðspurður segir Stefán að lögregla hafi áður haft afskipti af umræddum manni. Hann var ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald heldur látinn gista fangageymslur í fyrrinótt og sleppt eftir yfirheyrslur. Búast má við að hann verði ákærður bæði fyrir líkamsárásina fyrir utan skemmtistaðinn og fyrir brot gegn valdstjórninni vegna árásarinnar á lögreglumanninn.

Um árásina á lögreglumanninn segir Stefán. „Þetta er eitthvað sem við getum ekki látið viðgangast en því miður getur þetta gerst. Við verðum að taka alvarlega á þessum málum og ég vona að réttarkerfið taki fast þessu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×