Innlent

Enn ringulreið í fjármálakerfinu

Fjármálakerfi Íslands er enn í algerri ringulreið og engin leið að gera sér grein fyrir því hversu mikill skaðinn verður. Þessa mynd fékk viðskiptanefnd Alþingis af stöðu mála eftir fund í morgun með skilanefndum og bankastjórum nýju ríkisbankanna.

Þrír mótmælendur á Austurvelli hæddust að ráðamönnum í hádeginu með því að bjóða þeim að taka skóflustungu, að klippa á borða eða hanga á bláþræði. Engin kom út úr þinghúsinu til slíkra verka enda hlé á þingfundum svo þingmönnum gefist ráðrúm til að heilsa upp á kjósendur. Viðskiptanefnd Alþingis fundaði þó í morgun til að meta stöðuna á íslenskum fjármálamarkaði og fékk til sín nýskipaða bankastjóra og skilanefndir bankanna og einnig fjármálaeftirlitið fyrir helgi.

Engin svör fást við stórum spurningum eins og hversu miklar ábyrgðir muni falla á íslenska ríkið vegna bankagjaldþrotsins, hvernig eigi að standa undir þeim, hversu mikið eigendur peningamarkaðsreikninga fái til baka af sínum fjármunum eða hvenær eðlileg gjaldeyrisviðskipti geta hafist.

Formaður viðskiptanefndar Alþingis viðurkennir að það sé ringulreið á fjármálamarkaðinum en segir í viðtali við Stöð 2 að þetta ástand muni ekki vara lengi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×