Enski boltinn

United meistari - Reading og Birmingham féllu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn United fagna í leikslok.
Leikmenn United fagna í leikslok. Nordic Photos / Getty Images

Manchester United er Englandsmeistari í knattspyrnu en Reading og Birmingham féllu í ensku B-deildina ásamt Derby.

Cristiano Ronaldo og Ryan Giggs tryggðu Manchester United sigur gegn Wigan og þar með Englandsmeistaratitilinn.

Chelsea var með forystuna gegn Bolton en máttu sætta sig við jafntefli þar sem gestirnir jöfnuðu metin á lokamínútu leiksins.

Everton keppir í UEFA-keppninni og Aston Villa í Intertoto-keppninni.

Á botninum var Reading lengst af hólpið en mark Danny Murphy seint í síðari hálfleik Portsmouth og Fulham breytti öllu. Öll botnbaráttuliðin þrjú unnu sína leiki sem þýddi að Fulham bjargaði sér en Reading og Birmingham féllu.

Vísir var með beina textalýsingu frá leikjunum og má lesa allt um gang leikjanna hér fyrir neðan.

Meistarabaráttan:

Wigan - Manchester United 0-2

Chelsea - Bolton 1-1

1. Manchester United 87 stig (+58 í markatölu)

2. Chelsea 85 (+39)

UEFA-bikarkeppnin:

Everton - Newcastle 3-1

West Ham - Aston Villa 2-2

5. Everton 65 (+22)

6. Aston Villa 60 (+20)

Fallslagurinn:

Derby - Reading 0-4

Portsmouth - Fulham 0-1

Birmingham - Blackburn 4-1

16. Bolton 37 (-18)

17. Fulham 36 (-22)

----

18. Reading 36 (-25)

19. Birmingham 35 (-16)

20. Derby 11 (-69)

John Terry þurfti að fara af velli á 13. mínútu eftir samstuð við Petr Cech.Nordic Photos / Getty Images

Chelsea - Bolton 1-1

1-0 Andryi Shevchenko (62.)

1-1 Kevin Davies (90.)


Frank Lampard var í byrjunarliði Chelsea eftir að hafa misst af leiknum gegn Newcastle en Ricardo Carvalho er meiddur þannig að Alex var í varnarlínu Chelsea ásamt John Terry.

Joey O'Brien kom inn í byrjunarlið Bolton í stað Danny Guthrie. Grétar Rafn Steinsson var í byrjunarliði Bolton en Heiðar Helguson var ekki í leikmannahópi liðsins.

Chelsea-menn urðu fyrir áfalli snemma í leiknum er John Terry þurfti að fara af velli eftir að hafa lent í samstuði við Petr Cech, markvörð Chelsea. Terry fékk hnéð í andlit sitt og gat því eðlilega ekki haldið áfram.

Chelsea lét þó ekki slá sig af laginu og um miðbik hálfleiksins komst Didier Drogba í afar gott færi en rétt missti af boltanum.

Heimamenn höfðu mikla yfirburði í fyrri hálfleik en varnarleikur Bolton var vel skipulagður og staðan því markalaus í hálfleik. Andriy Shevchenko kom inn á í liði Chelsea í hálfleik fyrir Claude Makelele.

Shevchenko þakkaði fyrir sig með því að koma sínum mönnum yfir með marki á 62. mínútu. Hann skoraði af stuttu færi eftir að skot Frank Lampard skoppaði í gegnum vörn Bolton og beint fyrir fætur Shevchenko.

Skömmu síðar komst Bolton nálægt því að jafna en Cech varði vel frá El-Hadji Diouf. Undir lok leiksins bjargaði Ashley Cole svo sínum mönnum í Chelsea með því að verja á marklínu.

Það var svo Kevin Davies sem náði að jafna metin er hann skaut að marki eftir lélega hreinsun Alex. Cech náði ekki að verja.

En þar sem Manchester United vann sinn leik er nokkuð ljóst að úrslit þessa leiks skipta ekki máli. Chelsea varð að sætta sig við annað sætið í deildinni.

Wilson Palacios og Paul Scholes í baráttunni.Nordic Photos / Getty Images

Wigan - Manchester United 0-2

0-1 Cristiano Ronaldo, víti (33.)

0-2 Ryan Giggs (80.)


Nemanja Vidic og Wayne Rooney voru báðir í byrjunarliði Manchester United en sá síðarnefndi var talinn afar tæpur fyrir leikinn. Cristiano Ronaldo, Carlos Tevez og Rooney voru í sókninni og þeir Paul Scholes, Michael Carrick og Ji-Sung Park á miðjunni.

Maynor Figueroa var í byrjunarliði Wigan í fyrsta sinn á tímabilinu í stað Kevin Kilbane sem hefur átt við meiðsli að stríða.

Það var jafnræði með liðunum fyrsta hálftímann en það dró til tíðinda á 32. mínútu er Emmeron Boyce var dæmdur brotlegur fyrir að brjóta á Wayne Rooney innan teigs. Vítaspyrna var því dæmd og skoraði Cristiano Ronaldo örugglega úr henni.

Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir Manchester United og enski meistaratitillinn blasti við liðinu.

United fékk aukaspyrnu á hættulegum stað snemma í síðari hálfleik en Chris Kirkland varði vel frá Ronaldo. Í kjölfarið fengu meistaraefnin nokkur góð færi og vildu þar að auki fá vítaspyrnu eftir að Titus Bramble virtist brjóta á Paul Scholes. Ekkert víti var þó dæmt.

Emile Heskey komst svo nálægt því að jafna á 69. mínútu er skalli hans fór naumlega yfir mark United.

Ryan Giggs kom svo inn á sem varamaður í sínum 758. leik með United og jafnaði hann þar með met Bobby Charlton. Hann hélt upp á það með því að skora annað mark United og tryggja þar með liðinu Englandsmeistaratitilinn.

Giggs fékk glæsilega sendingu frá Wayne Rooney inn í teig Wigan og skoraði af mikilli yfirvegun. Hann kórónaði svo leikinn með því að bjarga á marklínu en Wigan náði þrátt fyrir nokkrar ágætar tilraunir ekki að koma boltanum í netið.

Manchester United er því Englandsmeistari í knattspyrnu þetta tímabilið.

Yakubu fagnar marki sínu í dag.Nordic Photos / Getty Images

Everton - Newcastle 3-1

1-0 Yakubu (28.)

1-1 Michael Owen, víti (46.)

2-1 Joleon Lescott (70.)

3-1 Yakubu, víti (82.)


Tony Hibbert og Andy Johnson voru fjarverandi vegna meiðsla hjá Everton og þeir Victor Anichebe og Yakubu voru í sóknarlínu liðsins.

Kevin Keegan gerði fjórar breytingar á sínu byrjunarliði en þeir Charles N'Zogbia, Alan Smith, Damien Duff og Andy Carroll voru í byrjunarliði Newcastle.

Eftir um hálftímaleik fékk Everton aukaspyrnu sem Manuel Fernandes tók. Hann stýrði boltanum beint á kollinn á Yakubu sem skallaði knöttinn í netið.

Þannig var staðan í hállfeik en sá síðari var varla hafinn þegar að Joseph Yobo braut á N'Zogbia innan teigs og vítaspyrna dæmd sem Michael Owen skoraði úr.

Everton komst öðru sinni yfir í leiknum og aftur eftir aukaspyrnu. Boltinn barst á Fernandes sem gaf háa sendingu á Lescott sem skoraði með laglegu skoti.

Yakubu innsiglaði svo sigurinn með marki úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Stephen Taylor braut á Leon Osman.

Nolberto Solano fagnar marki sínu í dag.Nordic Photos / Getty Images

West Ham - Aston Villa 2-2

0-1 Nolberto Solano (6.)

1-1 Ashley Young (14.)

1-2 Gareth Barry (58.)

2-2 Dean Ashton (88.)


Martin O'Neill stillti upp óbreytti byrjunarliði hjá Aston Villa en Anton Ferdinand var í byrjunarliði West Ham á nýjan leik eftir meiðsli. Nolberto Solano var á miðjunni í stað Hayden Mullins.

Solano þakkaði fyrir sig með því að koma heimamönnum yfir með skoti beint úr aukaspyrnu.

En Aston Villa voru fljótir að jafna. Ashley Young gerði það eftir sendingu Nigel Reo-Coker en Young hafði áður skotið í stöng í leiknum.

Engin fleiri mörk voru skoruð í fyrri hálfleik en Gareth Barry kom sínum mönnum í Aston Villa snemma í síðari hálfleik. Barry náði frákastinu eftir skot Reo-Coker og skoraði af öryggi.

Dean Ashton jafnaði svo metin fyrir West Ham með þrumuskoti og því ekkert annað en Intertoto-keppnin sem blasir við Aston Villa.

James Harper fagnar marki sínu mikilvæga fyrir Reading í dag.Nordic Photos / Getty Images

Derby - Reading 0-4

0-1 James Harper (15.)

0-2 Dave Kitson (61.)

0-3 Kevin Doyle (69.)

0-4 Leroy Lita (90.)


Ívar Ingimarsson var í byrjunarliði Reading en Brynjar Björn Gunnarsson var ekki í leikmannahópi liðsins. En þrjár breytingar voru gerðar á byrjunarliði Reading frá síðasta leik. Marek Matejovsky, Graeme Murty og John Oster komu inn í byrjunarliðið í stað Liam Rosenior, Andre Bikey og Kevin Doyle.

Paul Jewell gerði þó nokkrar breytingar á byrjunarliði Derby en hann hefur enn ekki náð að stýra liðinu til sigurs síðan hann tók við því.

James Harper kom Reading yfir eftir sendingu Dave Kitson og skoraði með glæsilegu skoti. Þetta þýðir að Reading var hólpið eins og leikirnir stóðu þá.

Þannig var staðan í hálfleik en þegar um stundarfjórðungur var liðinn af þeim síðari skoraði Kitson annað mark Reading við gríðarlega fögnuð stuðningsmanna liðsins. Nicky Shorey átti langt skot að marki en það var varið. Leroy Lita náði frákastinu og gaf boltann á Kitson sem skoraði í autt markið.

Reading gerði svo endanlega út um leikinn er Kevin Doyle skoraði þriðja mark liðsins þegar rúmar 20 mínútur voru til leiksloka. Hann var nýkominn inn á sem varamaður og skoraði af stuttu færi eftir að Derby náði ekki að hreinsa frá fyrirgjöf frá hægri. Sem fyrr, afar slakur varnarleikur af hálfu Derby.

Lita skoraði svo fjórða mark Reading sem dugði skammt þar sem liðið féll í ensku B-deildina, þökk sé sigri Fulham gegn Portsmouth.

Jimmy Bullard og Lassana Diarra í baráttunni í dag.Nordic Photos / Getty Images

Portsmouth - Fulham 0-1

0-1 Danny Murphy (76.)

Hermann Hreiðarsson var í byrjunarliði Portsmouth en Sol Campbell og David James voru fjarverandi. Pedro Mendes og Kanu voru í byrjunarliði Portsmouth á nýjan leik.

Fulham dugði sigur í dag til að tryggja sæti og Roy Hodgson stillti upp sama liði og vann Birmingham um síðustu helgi.

Ekki mikið markvert gerðist í fyrri hálfleik og staðan því markalaus. Í þeim síðari virtist Fulham ekki líklegt til að skora og virtust hreinlega taugaóstyrkir þar sem ekkert annað en fall blasti við liðinu.

En svo kom markið. Jimmy Bullard tók aukaspyrnu frá hægri og Danny Murphy skoraði með skalla, við gríðarlegan fögnuð stuðningsmanna liðsins. Fulham er uppi með þessu marki.

Roy Hodgson, stjóri Fulham, fagnaði þessu marki gríðarlega eins og skiljanlegt er.

Svo fór að markið bjargaði Fulham og Danny Murphy er þar með kominn í guðatölu hjá stuðningsmönnum Fulham.

Alex McLeish fagnar marki sinna manna í dag.Nordic Photos / Getty Images

Birmingham - Blackburn 4-1

1-0 David Murphy (31.)

1-1 Morten Gamst Pedersen (49.)

2-1 Cameron Jerome (73.)

3-1 Cameron Jerome (89.)

4-1 Fabrice Muamba (90.)


Birmingham stillti upp sama byrjunarliði sem var er liðið tapaði fyrir Fulham um síðustu helgi. Hið sama má segja um Blackburn sem þýðir að Benni McCarthy þurfti að sætta sig við að sitja á bekknum.

Birmingham komst yfir í leiknum með marki David Murphy sem skaut löngu skoti að marki en ótrúlega nokk náði Brad Friedel, markvörður Blackburn, ekki að halda boltanum.

Þegar markið var skorað var það þó ekki nóg þar sem Reading var að vinna sinn leik.

Leikmenn Birmingham héldu þó ótrauðir áfram og áttu annað skot að marki en í þetta sinn var Friedel vel á verði. Skömmu síðar komst Brett Emerton nálægt því að skora fyrir Blackburn en skot hans var varið á línu af Stephen Kelly.

En heimamenn náðu að halda í forystuna í fyrri hálfleik. Hún entist þó ekki lengi því Norðmaðurinn Morten Gamst Pedersen jafnaði metin fyrir gestina snemma í síðari hálfleik eftir undirbúning Roque Santa Cruz.

Cameron Jerome skoraði svo tvívegis undir lok leiksins en það dugði ekki til þar sem að Fulham vann sinn leik. Birmingham er því fallið.

Aðrir leikir:

Middlesbrough - Manchester City 8-1

1-0 Stewart Downing, víti (16.)

2-0 Afonso Alves (37.)

3-0 Afonso Alves (60.)

4-0
Stewart Downing (62.)

5-0 Adam Johnson (70.)

6-0 Fabio Rochemback (80.)

7-0 Jeremie Aliadiere (85.)

7-1 Elano (87.)

8-1 Afonso Alves (90.)


Rautt spjald: Richard Dunne, Manchester City (15.).

Sunderland - Arsenal 0-1

0-1 Theo Walcott (24.)

Tottenham - Liverpool 0-2

0-1 Andriy Voronin (69.)

0-2 Fernando Torres (74.)





Fleiri fréttir

Sjá meira


×