Íslenski boltinn

Grindavík hafði betur í Árbænum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Scott Ramsay átti stóran hlut í marki Grindavíkur í kvöld.
Scott Ramsay átti stóran hlut í marki Grindavíkur í kvöld.

Grindavík vann 1-0 sigur á Fylki í Árbænum í lokaleik áttundu umferðar Landsbankadeildar karla með marki Alexanders Veigars Þórarinssonar.

Markið skoraði hann eftir glæsilega rispu Scott Ramsay sem tætti í sig Fylkisvörnina.

Fylgst var með leiknum í beinni lýsingu á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins. Smelltu hér til að komast á Boltavaktina eða settu inn slóðina visir.is/boltavakt.

Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill. Fylkismenn byrjuðu leikinn mjög varlega og leyfðu Grindvíkingum að halda boltanum. Í fyrstu gekk Grindvíkingum illa að sækja upp völlinn en þá tók Scott Ramsay til sinna mála.

Hann lék tvo varnarmenn Fylkis afar grátt við endalínuna, gaf út í teiginn þar sem Andri Steinn Birgisson átti skot í stöng. Boltinn barst þá á hina stöngina þar sem Alexander Veigar Þórarinsson var mættur og skoraði af stuttu færi.

Eftir þetta hættu Fylkismenn sér framar á völlinn og við það opnaðist leikurinn aðeins. Ekki mikið meira markvert gerðist í fyrri hálfleik en helst bar skalli Ólafs Stígssonar eftir fyrirgjöf Jóhanns Þórhallssonar undir lok hálfleiksins. Ólafur var í fínu skallafæri en hitti boltann illa.

Fylkismenn voru mun betri í síðari hálfleik en þeim fyrri og sóttu mikið. Grindvíkingar áttu aðeins örfáar marktilraunir og ætluðu greinilega að leggja ofurkapp á að verja forystuna.

Það virtist ganga ágætlega þar sem Fylkismönnum gekk iðulega illa að klára sóknir sínar með almennilegri marktilraun. Bestu tilraunina átti Guðni Rúnar Helgason um miðbik hálfleikins er hann skaut í samskeytin á marki Grindavíkur beint úr aukaspyrnu.

Bogi Rafn Einarsson fékk svo tækifæri til að gulltryggja sigur Grindvíkinga í lokin en skot hans úr mjög góðu færi fór framhjá.

Úrslitin þýða að Fylkismenn hafa tapað fjórum deildarleikjum í röð en Grindvíkingar hafa hins vegar unnið þrjá af síðustu fimm leikjum sínum en bæði lið eru nú með níu stig. Grindavík er í níunda sæti deildarinnar eftir átta leiki og Fylkir í því tíunda eftir níu leiki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×