Enski boltinn

Fyrsti stórleikur tímabilsins

Steven Gerrard og Anderson háðu harða baráttu á Anfield í fyrra en Gerrard verður líklega fjarri góðu gamni í dag. 
nordic photos/getty
Steven Gerrard og Anderson háðu harða baráttu á Anfield í fyrra en Gerrard verður líklega fjarri góðu gamni í dag. nordic photos/getty

Átta leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í dag en flestra augu munu líklega beinast að hádegisleik Liverpool og Englandsmeistara Manchester United.

Liverpool getur unnið sinn ellefta heimaleik í röð og komist eitt á topp deildarinnar, alltént í nokkrar klukkustundir, þegar erkifjendurnir í United koma í heimsókn. Liverpool tapaði aðeins einum heimaleik í deildinni á síðustu leiktíð, en það var einmitt á móti United.

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United, virðist reyndar hafa eitthvert tak á Rafa Benitez, knattspyrnustjóra Liverpool, því í deildinni hefur Skotinn stýrt United til sigurs í sjö leikjum af átta gegn Liverpool undir stjórn Spánverjans og gert eitt jafntefli. Eina skiptið sem Benitez hefur skotið Ferguson ref fyrir rass var í 5. umferð FA-bikarsins árið 2006.

Jamie Carragher, varnarmaður Liverpool, viðurkennir að United sé búið að spila betur en Liverpool í undanförnum grannaslögum.

„Ég trúi ekki á heppni og óheppni í fótbolta. Þú færð bara það sem þú átt skilið og United hefur verið betra en við í síðustu viðureignum," segir Carragher.

Liverpool verður að öllum líkindum án bæði Stevens Gerrard og Fernando Torres og pressan fer nú að aukast á Robbie Keane að skora sitt fyrsta mark fyrir Rauða herinn.

Dimitar Berbatov, fyrrum liðsfélagi Keane hjá Tottenham, mun líklega spila sinn fyrsta leik í treyju United en líklegt er þó að Ferguson haldi sig við Wayne Rooney og Carlos Tevez í framlínunni. Þá vonast Ferguson eftir því að Michael Carrick nái að spila leikinn eftir að hafa jafnað sig á ökklameiðslum. - óþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×