Innlent

Efnahagráðgjafi ríkisstjórnarinnar hættur

Breki Logason skrifar
Tryggvi Þór Herbertsson
Tryggvi Þór Herbertsson

Tryggvi Þór Herbertsson sem verið hefur efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar undanfarið hefur látið af störfum. Tryggvi var ráðinn til sex mánaða en starfaði einungis í tvo og hálfan mánuð. Hann segir að um sé að ræða samkomulag tveggja manna sem gert hafi verið í miklu bróðerni.

„Þetta er ekkert persónulega á milli okkar Geirs," segir Tryggvi sem er í leyfi frá bankastjórastöðu hjá Askar Capital þar til í lok janúar.

„Ég geri ekki ráð fyrir neinu öðru en að ég taki við því starfi þá."

Tryggvi vill lítið tjá sig um ástæður þess að hann lét af störfum en segir þetta hafa verið niðurstöðu þeirra Geirs H. Haarde.

„Það bjóst náttúruelga enginn við því að málin myndu þróast eins og þau þróuðust. Það er hinsvegar ekki það að þetta hafi verið erfitt að ég hætti. Ég er ekkert sérstaklega vinnufælinn né ákvarðanafælinn maður," segir Tryggvi aðspurður hvort starfið hafi verið honum erfiðara en hann gerði ráð fyrir.

Aðspurður hvort hann hafi verið ósáttur með einhverjar af þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið segir Tryggvi:

„Það er nú bara eins og í lífinu sjálfu. Stundum er maður sáttur og stundum ósáttur, það er ekkert eitt sem stendur þar upp úr."

Hafa verið gerð mistök?

„Það eru alltaf gerð mistök og það kemur í ljós með tímanum hver þau voru, en það eru engin augljós mistök í þessu."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×