Innlent

Setið um plássin

Jón Páll Jakobsson
Jón Páll Jakobsson
„Það eru nú mjög margar umsóknir sjómanna, ætli fjöldi umsókna hafi ekki fjórfaldast bara á síðustu tveimur mánuðum,“ segir Hákon Viðarsson, yfirmaður starfsmannasviðs Síldarvinnslunnar í Fjarðabyggð. „Við auglýstum nýlega eftir tveimur vélstjórum og fengum á þriðja tug umsókna, auk þess hringdu fleiri í okkur en sendu ekki inn umsókn þar sem þeir uppfylltu ekki skilyrðin.“

„Það er mikil ásókn í það að komast á sjó, ég fæ fyrirspurn á netinu á hverjum degi og eins er hringt í mig daglega,“ segir Guðni Ingvar Guðnason, útgerðarstjóri Vinnslustöðvarinnar. Hann segir að áður hafi verið mikil hreyfing á sjómönnum; margir hafi ráðið sig til skamms tíma. Þá hafi það stundum borið við að erfitt væri að manna skipin. „Þessar sveiflur eru alveg horfnar því nú sitja menn á sínum plássum og eru ekkert að láta þau laus.“

Þeir Guðni og Hákon segja að margir þeirra sem nú sækist eftir að komast á sjó séu menn úr byggingageiranum sem nú hafi misst vinnu sína eða sjái fram á óvissutíma í sínum atvinnumálum.

Jón Páll Jakobsson sjómaður segir að margir norskir útgerðarmenn hugsi sér gott til glóðarinnar í þessu ástandi. „Þeir eru farnir að auglýsa eftir sjómönnum hér á landi enda kjósa þeir frekar íslenska sjómenn heldur en sjómenn frá gömlu austantjaldslöndunum sem hafa margir gengið í þessi störf meðan heimamenn hafi í auknum mæli horfið í olíugeirann,“ segir hann. Hann er sjálfur á leið til Noregs þar sem hann hefur ráðið sig sem vélstjóri á bát. „Ég náði mjög góðum samningum, þeir borga meira að segja farið út sem er ekki svo lítið.“ Hann segist vita af fjölda sjómanna sem íhugi nú að leita hófanna í Noregi.

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Brims á Akureyri, og Þór Vilhjálmsson, starfsmannastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, segja að eftirspurn eftir störfum við landvinnslu hafi einnig aukist síðustu tvo mánuði. Hákon hjá Síldarvinnslunni sagði þó að enn bæri á „fiskvinnslufælni“ Íslendinga eins og hann komst að orði. „Mig vantar til dæmis á nokkrar vaktir og það er eftir nógu að slægjast fyrir þá sem eru til í að leggja á sig mikla vinnu,“ segir hann. „Ég get sagt það óhikað að þeir launahæstu í vinnslunni hafi verið með um 500 þúsund í síðasta mánuði.“

jse@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×