Innlent

Strætófarþegum fjölgar í kreppunni

Merkja má fjölgun á farþegum hjá Strætó á álagstímum að undanförnu og telur Jórunn Frímannsdóttir, stjórnarformaður Strætó bs. að rekja megi fjölgunina til efnahagsástandsins. Hún segir að margt bendi til þess að sífellt fleiri sjái sér hag í því að ferðast í og úr vinnu með strætó. Fjárhagsáætlun Strætó bs. var til umræðu á stjórnarfundi á mánudag. Jórunn Frímannsdóttir segir ekki ljóst hvernig endanleg fjárhagsáætlunin muni líta út „Þetta er þungur rekstur en það er mikilvægt að standa vörð um þessa þjónustu," segir Jórunn.

Vonir standa til að strætó muni færa út kvíarnar á næsta ári því að verið er að ræða samkomulag um þjónustu Strætó við Árborgarsvæðið annarsvegar og Borgarnes og Akranes hins vegar. Jórunn segir að þessi sveitarfélög eigi eftir að samþykkja fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og ekki sé hægt að búast við því að þessi samningur verði kláraður nema í tengslum við fjárhagsáætlanirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×