Innlent

Ingibjörg: „Ásættanleg niðurstaða“

Þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Geir H. Haarde forsætisráðherra tilkynntu nú fyrir stundu að samkomulag hafi náðst við Evrópusambandið varðandi Icesave reikninga Landsbankans. Í samkomulaginu fellst að Íslendingar viðurkenna að þeim beri að tryggja innistæður að hámarki 20.877 evrum á hverjum reikningi í samræmi við lög um tryggingasjóð innistæðueigenda. Í framhaldi af þessu munu Íslendingar hefja viðræður við Breta og Hollendinga um hvernig staðið verði að því að greiða út peningana.

Ingibjörg Sólrún sagði á fundi í Ráðherrabústaðnum að ekki væri útilokað að þjóðirnar láni Íslendingum fyrir upphæðunum en hún ítrekaði þá skoðun sína að eignir Landsbankans í viðkomandi löndum eigi að duga fyrir þeim. Aðspurð um hve háar upphæðir væri að ræða vildi Ingibjörg ekki tilgreina það nákvæmlega en hún segir þó að um sé að ræða um það bil 600 milljarða króna. Að mati Ingibjargar er um ásættanlega niðurstöðu að ræða fyrir Íslendinga enda hafi þjóðin verið orðin „vinafá" á alþjóðlegum vettvangi.

Samkomulagið sem nú er í höfn gerir það að verkum að opnað verður fyrir lánalínur til Íslendinga að nýju auk þess sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett umsókn Íslendinga um lán á dagskrá á miðvikudaginn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×