Íslenski boltinn

Haraldur til skoðunar hjá ÍA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Þórðarson, þjálfari ÍA.
Guðjón Þórðarson, þjálfari ÍA. Mynd/Daníel

Haraldur Björnsson, markvörður hjá Hearts í Skotlandi, er nú í skoðun hjá ÍA sem er á höttunum eftir markverði til að leysa hinn meidda Pál Gísla Jónsson af hólmi.

Guðjón Þórðarson, þjálfari ÍA, sagði í samtali við Vísi í dag að félagið ætti í viðræðum við Hearts og að málið myndi skýrast á allra næstu dögum.

„Hann æfði með okkur í gær en hann er ekki í sínu besta formi þar sem hann hefur átt við meiðsli að stríða. Við viljum því ganga úr skugga um að hann sé alveg heill."

„En hann gæti verið góður kostur fyrir okkur. Mér líst vel á drenginn enda geðþekkur piltur. Það er fleira sem mælir með þessu en á móti."

Þá hafa Skagamenn lánað hinn nítján ára Gísla Frey Brynjarsson til Víkings á Ólafsvík. „Það hefur aukist samkeppnin um framherjastöður í liðinu og teljum við að þetta gæti orðið gott fyrir hann að fá að spreyta sig þar."

Landsbankadeild karla hefst annan laugardag og segist Guðjón hlakka til mótsins. „Ef við skoðum hvernig liðið var á þessum tímapunkti í fyrra og í ár þá erum við mun ánægðari nú. Það er helst að maður hafi áhyggjur af hitastiginu. Það væri gott að fá smá rigningu núna enda þarf að huga vel að grasinu."

Margir spá ÍA góðu gengi í sumar en Guðjón gefur lítið fyrir alla spádóma. „Talk is cheap. Það er bara eitt tungumál sem skilst í þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×