Íslenski boltinn

Jón Þorgrímur gæti spilað í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram.
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram. Mynd/Pjetur

Jón Þorgrímur Stefánsson gæti komið við sögu í leik Fram og Fjölnis í kvöld en hann hefur verið frá síðan hann meiddist í leik Fram og Fylkis í fyrstu umferð mótsins.

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, sagði að það kæmi til greina að nota hann í kvöld en þó væri enn ekkert öruggt í þeim efnum.

Reynir Leósson og Henrik Eggerts eru enn frá vegna meiðsla í liði Fram. Flestir leikmenn Fjölnis eru þó heilir ef frá er talinn Magnús Ingi Einarsson sem var ekki heldur með í síðasta leik Fjölnis.

Leikurinn fer fram á Fjölnisvellinum og hefst klukkan 19.15. Klukkutíma síðar hefst leikur Breiðabliks og FH sem verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sporti.

Davíð Þór Viðarsson, leikmaður FH, mun taka út leikbann í leiknum en vel gæti verið að Ásgeir Gunnar Ásgeirsson tæki hans stöðu í byrjunarliðinu en hann hefur allur verið að koma til eftir meiðsli.

Þá eru engin meiðsli í herbúðum Breiðabliks fyrir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×