Innlent

Reynt að skaða samningaferlið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn

Upplýsingum sem birtust í Financial Times um samningaviðræður íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var lekið í blaðið til að skaða samningaferlið. Þetta sagði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra Í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Financial Times sagði frá því á mánudag að íslensk stjórnvöld muni óska eftir 670 milljarða króna aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ýmsum seðlabönkum í heiminum.

Björgvin sagði Í bítinu að ríkisstjórnin gæti ekki sagt nákvæmlega frá viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn því að með því væri verið að rjúfa trúnað. „Það sem gerðist með lekann í Financial Times um daginn, að þá er ég sannfærður um að það að því var lekið i blaðið til að skaða samningaferlið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn," sagði Björgvin. Hann nefndi ekki hverjir gætu haft hag af því að skaða viðræðurnar en útilokaði að Bretar hefðu verið að verki.

„En þetta var augljóst mál. Svo eru menn að leka einhverjum molum út sko til að setja upp í munninn á til dæmis stjórnarandstöðu og þeim sem eru í því hlutverki að finna þessu öllu til foráttu. Að gera þetta ótrúverðugt, eins og það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setji það skilyrði að við eigum að borga Bretunum," segir Björgvin. Hann þvertekur fyrir að nokkur slík skilyrði hafi verið sett.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×