Enski boltinn

Enskir markverðir ekki nógu skólagengnir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jens Lehmann í marki þýska landsliðsins.
Jens Lehmann í marki þýska landsliðsins. Nordic Photos / Getty Images

Jens Lehmann segir að ástæðan fyrir því að enskir markverðir munu aldrei komast í hóp bestu markvarða heims er að þeir hættu of snemma í skóla.

„Stundum hætta markverðir hér of snemma í skóla," sagði Lehmann. „Markverðir þurfa að halda fullri einbeitingu í 90 mínútur, stundum 120 mínútur og jafnvel í 150 mínútur. Besta aðferðin við að þjálfa einbeitinguna er í skóla með því að einbeita sér að verkefnum. Menn ná því ekki ef þeir hætta í skóla sextán ára gamlir."

„Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að erlendir markverðir koma til Englands. Ég þekki suma þeirra og þeir eru mjög skarpir, eins og Petr Cech og Edwin van der Sar."

Lehmann mun fara frá Arsenal í sumar en hann missti sætið sitt í byrjunarliði félagsins til Manuel Almunia í haust og hefur verið á bekknum lengst af á nýliðnu tímabili.

Þó er líklegt að Lehmann, sem verður fertugur á næsta ári, ljúki ferlinum í heimalandi sínu, Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×