Innlent

Fyrrverandi pólitíkusar eiga ekki að vera í forystu fyrir Seðlabanka

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að Samfylkingin sé þeirrar skoðunar að fyrrverandi pólitíkusar eigi ekki að vera í forystu fyrir Seðlabanka. Að hennar mati hafi umræðan síðustu daga og vikur verið of pólitísk af hálfu Seðlabankans. Ýmsar aðgerðir og yfirlýsingar stjórnar bankans á síðustu dögum og vikum orki mjög tvímælis.Þá hafi ummæli Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, skaðað orðspor Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Ingibjörg segir að í þeirri viðkvæmu stöðu sem þjóðin er í geti það ekki gengið til lengdar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir einnig Seðlabankann í Fréttablaðinu í dag. Hún segir að það sé eitt brýnasta verkefni stjórnvalda að endurskoða peningamálastefnuna og gengið verði í það verk fljótlega.

Hún gagnrýnir einnig opnun IceSave reikninga Landsbankans í Hollandi og Seðlabankann fyrir að hafa ekki leyft bönkunum að gera upp í evrum. Sú ákvörðun hafi átt þátt í falli bankanna. Þá undrast hún einnig afhverju Seðlabankinn byrjaði ekki að styrkja gjaldeyrisforðann með öflugri hætti í litlu bankakreppunni 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×