Íslenski boltinn

FH vann KR í hörkuleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
FH-ingar fögnuðu sigri á KR-vellinum í dag.
FH-ingar fögnuðu sigri á KR-vellinum í dag. Mynd/Vilhelm

FH vann í dag 2-1 sigur á KR og náði þannig fjögurra stiga forystu á toppi Landsbankadeildar karla. Bjarni Guðjónsson fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiksins.

Eins og alltaf fylgdist Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins náið með leiknum. Smelltu hér til að komast á Miðstöð Boltavaktarinnar og lesa meira um leikinn.

FH skoraði tvívegis í fyrri hálfleik. Fyrst skoraði Tryggvi Guðmundsson úr vítaspyrnu sem var dæmd á Jordao Diogo fyrir að handleika knöttinn. Skömmu áður hafði Tryggvi lagt upp dauðafæri fyrir Matthías Guðmundsson sem hann náði ekki að nýta þó svo að hann hafi staðið einn fyrir opnu marki.

Leikurinn var hraður og skemmtilegur og á 29. mínútu skoruðu FH-ingar öðru sinni eftir laglega sókn. Hún endaði með því að Höskuldur Eiríksson gaf á Matthías sem skoraði með glæsilegu viðstöðulausu skoti úr miðjum vítateignum.

Greinilegt er að KR-ingar sakna Péturs Marteinssonar sem er ekki með KR í dag. Gunnlaugur Jónsson hefur tekið stöðu hans í vörninni en þetta er hans fyrsti leikur í langan tíma.

Bæði lið fengu þar að auki mörg færi í leiknum. Tryggvi átti skot í stöng og KR-ingurinn Guðjón Baldvinsson komst einn í gegnum vörn FH-inga en lét Gunnar Sigurðsson verja frá sér.

FH-ingar hófu síðari hálfleikinn á því að sækja stíft en án þess þó að ná að skora þriðja skiptið. Það hefði getað reynst þeim dýrkeypt því KR náði að minnka muninn þegar 25 mínútur voru til leiksloka. Guðmundur Reynir Gunnarsson var þar af verki með laglegu skoti.

Undir lok leiksins fékk svo Bjarni Guðjónsson að líta rauða spjaldið sem og Sigursteinn Gíslason, aðstoðarþjálfari KR-inga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×