Íslenski boltinn

Hrakfarir Skagamanna halda áfram

Elvar Geir Magnússon skrifar
Skagamenn eiga ekki sjö dagana sæla.
Skagamenn eiga ekki sjö dagana sæla.

ÍA tapaði á heimavelli sínum í kvöld fyrir Grindavík 1-2. Ekkert gengur hjá Skagamönnum um þessar mundir og allt stefnir í að þeirra hlutskipti verði að berjast fyrir lífi sínu í deildinni allt til loka.

Stefán Þórðarson kom Skagamönnum yfir úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Orri Freyr Hjaltalín braut á Jóni Vilhelm Ákasyni í vítateignum og Kristinn Jakobsson var ekki í nokkrum vafa og benti á punktinn. Þar steig Stefán fram og skoraði af miklu öryggi.

Jósef Kristinn Jósefsson jafnaði leikinn fyrir Grindvíkinga í 1-1 á 59. mínútu. Hann fékk sendingu frá Alexander Veigari Þórarinssyni, lék á Heimi Einarsson og setti boltann af öryggi framhjá Esben Madsen í marki ÍA.

Jóhann Helgason skoraði síðan sigurmark Grindavíkur á 68. mínútu. Hann slapp í gegnum vörn ÍA eftir góða sendingu frá Tomasz Stolpa og setti boltann undir Esben Madsen og í netið. Jóhann hafði einungis verið inni á vellinum í um 30 sekúndur þegar hann skoraði markið.

Grindavík vann gríðarlega mikilvægan sigur. Liðið er í áttunda sæti deildarinnar með þrettán stig og náði að slíta sig vel frá botninum. Skagamenn eru hinsvegar enn í fallsæti, eru í næstneðsta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×