Innlent

Kristín kannast við eyjuna Tortola

Kristín Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Gaums og systir Jóns Ásgeirs, kannast við eyjuna og skattaparadísina Tortola í Karíbahafinu. Hún fullyrðir að þangað hafi engir fjármunir verið fluttir frá Gaumi Holding í Lúxembúrg. Nöfn margra eignarhaldsfélaga sem skráð eru á Bresku Jómfrúreyjunum bera með sér að vera í eigu Íslendinga.

Fjölmörg eignarhaldsfélög hafa verið stofnuð erlendis síðustu ár og eru sum þeirra skráð í skattaparadísum, meðal annars á Bresku jómfrúreyjum í Karíbahafinu. Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir að ekkert ólöglegt sé við það að stofna félög á erlendri grund að því gefnu að ríkisskattstjóri fái um þau upplýsingar. Nöfn margra félaganna benda til þess að þau eigi rætur að rekja til Íslands og kemur eyjan Tortola þar við sögu, en hún er ein Bresku jómfrúreyjanna. Um hana var Jón Ásgeir Jóhannesson, kaupsýslumaður, spurður að í Silfri Egils nýverið.

Kristín Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Gaums kannast hins vegar við Tortola - í samtali við umsjónarmenn Kompás. Hún segir starfsmenn Kaupþings í Lúxembúrg hafa haft frumkvæði að tengingunni við eyjuna og þeir hafi vísað til þess að um hefð væri að ræða. Hún segir enga fjármuni hafa verið flutta frá Gaumi Holding í Lúxembúrg til eyjunnar í Karíbahafinu.

Kompásþáttur kvöldsins er tileinkaður íslensku útrásinni. Var hún sjónarspil fámenns hóps eða blekking? Tilfærsla fjármuna til banka - einkum í Hollandi og Lúxembúrg - og skattaparadísa, meðal annars í Karíbahafi?

Þátturinn er sýndur á Stöð 2 í opinni dagskrá klukkan tuttugu mínútur yfir sjö.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×