Innlent

Staða tryggingafélaga ágæt

 Formaður viðskiptanefndar Alþingis segir mikilvægt að tryggingafélögin geti ávalt mætt skuldbindingum sínum til að greiða bætur.
Formaður viðskiptanefndar Alþingis segir mikilvægt að tryggingafélögin geti ávalt mætt skuldbindingum sínum til að greiða bætur. Fréttablaðið/Heiða

Staða tryggingar­félaganna er ágæt að mati Fjármálaeftirlitsins. Þetta kom fram í máli fulltrúa eftirlitsins þegar þeir mættu á fund viðskiptanefndar Alþingis í gær.

„Það er ástæða til að fylgjast vel með tryggingamarkaðnum. Hann er ekki eins og hver annar markaður,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar Alþingis. „Þarna á almenningur mikla hagsmuni, ekki síst í bótasjóðnum eða vátryggingaskuldunum. Það þarf að vera öruggt að tryggingarfélög geti mætt þeim skuldbindingum sem á þeim hvíla. Fulltrúar Fjármálaeftirlitsins sögðu að þeir teldu að svo væri.“

Ágúst bætir við að Fjármálaeftirlitið hefði sagt að tryggingarfélögin væru í sífelldri skoðun og að staða félaganna væri ágæt. „Við heyrðum þetta svo sem líka með bankana þar til daginn að þeir féllu þannig að þessi mál þarf stöðugt að vakta,“ bendir Ágúst á.

Aðspurður hvort rannsóknir Fjármálaeftirlitsins á bankakerfinu hefði borið á góma á fundi viðskiptanefndarinnar í gær segir Ágúst svo ekki hafa verið. „Þetta voru ekki þeir embættismenn sem sjá um það en við fáum þá hins vegar reglulega á fundi nefndarinnar til að gefa upplýsingar. Við erum allaf að kalla eftir auknu gegnsæi og að jafnræði sé tryggt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×