Innlent

Vilja lögbinda jafnt kynjahlutfall í stjórnum fjármálafyrirtækja

Steinunn Valdís Óskarsdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. MYND/GVA

Fjórir þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp um að bundið verði í lög að í stjórn fjármálafyrirtækja sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að atburðir síðustu vikna hafi sýnt að þörf er á nýrri nálgun og nýrri hugsun í stjórnun fjármálafyrirtækja hér á landi. Lengi hafi verið rætt um lögfestingu á jöfnun kynjahlutfalls í stjórnun fjármálafyrirtækja og um það verið skiptar skoðanir. Norðmenn hafi þegar lögfest kynjahlutfallið til að tryggja jafnræði kynja í stjórnum fjármálafyrirtækja.

„Nú þegar stærstu bankar landsins verða í aðaleigu ríkisins og hlutfall kynjanna í stjórn þeirra þarf að vera sem jafnast og ekki minna en 40% í samræmi við jafnréttislög er eðlilegt að þessi regla eigi við um öll fjármálafyrirtæki landsins," segja flutningsmennirnir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Ellert B. Schram og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

„Er þetta ekki hvað síst mikilvægt nú eftir þær hræringar sem orðið hafa á fjármálamarkaði og þar sem búast má við auknu atvinnuleysi í þessum geira á næstu missirum. Ljóst er að fram til þessa hafa konur ekki átt greiðan aðgang að stjórnum banka eða fjármálafyrirtækja. Er það miður, ekki síst þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á fjárhagslegan ávinning fyrirtækja af því að auka hlutfall kvenna í stjórnum. Hið sama á reyndar við um stjórnunarstöður og hlutdeild kvenna þar.

Því er enn brýnna en áður að huga að jafnrétti á vinnumarkaði og þá ekki hvað síst með tliliti til aðgangs að stjórnunar- og ábyrgðarstöðum. Að auki er afar mikilvægt að stjórnir fjármálafyrirtækja séu þannig samsettar að gætt sé að fjölbreytileika, þar sem um er að ræða fjárvörslumenn almennings. Atburðir síðustu daga sýna að það er allur almenningur sem getur staðið og fallið með svona fyrirtækjum," segja flutningsmennirnir enn fremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×