Innlent

Þingmenn úr öllum flokkum mæta á borgarafundinn

Vel var mætt á borgarafundinn sem haldinn var á Nasa í síðustu viku.
Vel var mætt á borgarafundinn sem haldinn var á Nasa í síðustu viku.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra er sú eina úr ráðherraliði ríkisstjórnarinnar sem hefur boðað komu sína á opinn borgarafund í Háskólabíó í kvöld. Að sögn Davíðs A. Stefánssonar bókmentnafræðings sem stendur að fundinum hafa nokkrir þingmenn boðað komu sína.

„Það er einhver slæðingur af þingmönnum sem hefur meldað sig inn og nokkrir tilkynnt að þeir séu í útlöndum. Meðal annars ætla nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að láta sjá sig," segir Davíð en þingmennirnir verða uppi á sviði í Háskólabíó.

Ráðherrastólum verður stillt upp á sviðinu og einnig verður einn stóll fyrir Davíð Odsson seðlabankastjóra. Davíð segir að nafni sinn hafi ekki enn boðað komu sína, „Við bíðum spenntir."

Fundurinn verður í beinni útsendingu klukkan 20:00 á Rúv í kvöld en húsið opnar klukkan 19:00. Á svipuðum fundi sem haldinn var á Nasa í síðustu viku mættu á bilinu 700 og 900 manns en Háskólabíó tekur einungis 970 manns í sæti.

„Við hvetjum því fólk að mæta snemma og ná sæti," segir Davíð en einnig verða settir upp skjáir í anddyri hússins fyrir þá sem ekki ná sér í sæti.

„Það hafa verið mjög fjörugar umræður á þessum fundum og það koma alltaf góðar hugmyndir úr sal. Við lítum á það sem eðlilega beiðni að biðja ráðherra að koma og hitta fólkið sitt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×