Innlent

Stöðvuðu skip á leið til Noregs sem ekki var með lögskráða áhöfn

MYND/Guðmundur St. Valdimarsson

Áhöfn á einu af varðskipum Landhelgisgæslunnar hafði á föstudag afskipti af skipi undan Sandvík á Reykjanesi eftir að í ljós kom að engin lögskráð áhöfn var um borð.

Í tilkynningu Gæslunnar kemur fram að áhöfn varðskipsins hafi haft samband við stjórnstöð á föstudag þegar hún kom auga á umrætt skip. Taldi stjórnstöð skipið vera við höfn í Reykjavík en við nánari eftirgrennslan kom í ljós að svo var ekki. Þegar samband var haft við skipið kom í ljós að það var á leið til Noregs með erlenda áhöfn.

Stýrimenn varðskipsins fóru um borð í skipið og voru þar fjórir um borð, skipstjóri, stýrimaður og tveir vélstjórar. Engin áhafnartrygging var í gildi, enginn skipverji lögskráður og gat aðeins skipstjóri framvísað norsku skírteini. Hafði skipið ekki tilkynnt sig til stjórnstöðvar Gæslunnar samkvæmt reglum þar að lútandi. Var skipinu því beint til Þorlákshafnar og lögreglu og Siglingamálastofnun var gert viðvart. Hélt skipið síðan úr höfn á laugardag eftir að gengið var frá málum þess hér á landi og komin var lögskráð áhöfn um borð.

„Fjareftirlit stjórnstöðvar LHG tryggir ákveðið öryggi sjófarenda en tilgangur þess er jafnframt að halda uppi löggæslu á sjó. Með þessu móti er fylgst með skipaumferð og ef skip tilkynna ekki ferðir sínar má segja að þeir séu á eigin ábyrgð. Það getur í það minnsta seinkað björgunaraðgerðum ef neyðarsendir fer í gang á svæði þar sem ekki er vitað um neitt skip á sjó," segir enn fremur í tilkynningu Gæslunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×