Innlent

Sektuð fyrir stóla- og hjólböruþjófnað

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karl og konu til að greiða 30 þúsund króna sekt hvort fyrir gripdeild með því að hafa stolið tveimur stólum og hjólbörum sem stóðu fyrir utan hús í Hveragerði.

Fram kemur í dómnum að fólkið hafi játað brot sín. Sagðist það hafa reynt að hafa samband við eiganda stólanna til þess að kanna hvort þau mættu eiga þá. Það hefði ekki gengið og því hefðu þau talið að stólarnir væru útivið þar sem til stæði að henda þeim. Þau hefðu því ákveðið að taka stólana sem þau fluttu í hjólbörum sem var einnig fyrir utan húsið.

Kváðust þau síðan hafa komið við á skyndibitastað og fengið sér að borða en skilið stólana eftir fyrir utan á meðan og því hefðu þau ekki verið að laumast neitt með þá. Þau hefðu síðan skilað hlutunum þegar eigandinn hefði komið heim til þeirra ásamt lögreglu. Þá hafi þau bæði verið í óreglu á þessum tíma en tekið sig á og farið í meðferð auk þess að stunda AA-fundi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×