Erlent

Segir innflytjendur og Netið mestu ógnir Bretlands

Fyrrverandi innanríkisráðherra Bretlands segir innflytjendur og Netið helstu ógnirnar sem að landinu steðji.

John Reid var ómyrkur í máli þegar hann lýsti því yfir í viðtali við breska blaðið Telegraph að heimurinn væri orðinn mun hreyfanlegri nú en hann var áður og menn yrðu að átta sig á alvöru þess að nú mætti finna á Netinu uppskrift að stökkbreyttu inflúensuveirunni sem olli spænsku veikinni árið 1918 en hún varð 24 milljónum að bana.

Reid segir heiminn gjörbreyttan síðan kalda stríðið var í algleymingi. Þá hafi landamæri verið óyfirstíganleg, trúarlegum og öðrum öfgahópum hafi verið haldið í skefjum, ferðalög verið erfið og Netið ekki til. Nú sé öldin önnur og hættan á hryðjuverkum hafi stóraukist samhliða auknum straumi innflytjenda og notkun hryðjuverkasamtaka á Netinu sem samskiptamiðli.

Ríkisstjórnir heimsins hafa að mati Reids ekki tök á að fylgjast með nýjum ógnum og hann segir stjórnmálamenn allt of oft þurfa að taka ákvarðanir undir gífurlegum þrýstingi netverja og nýrra fjölmiðla sem starfi allan sólarhringinn. Þau samfélög sem ekki nái að mynda sterkara mótstöðuafl gegn þessum nýju straumum standi illa að vígi gagnvart árásum. Þar sé Bretland síst undantekningin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×