Innlent

Fjölmenni á Austurvelli í mótmælum gegn Davíð

Mikill fjöldi fólks er nú saman kominn á Austurvelli þar sem fram fara mótmæli og þess er krafist að Davíð Oddssyni seðlabankastjóra verði vikið frá störfum. Ekki hafa fengist upplýsingar um hversu margir eru á vettvangi.

Það var hópur undir forystu Harðar Torfasonar, Kolfinnu Baldvinsdóttur, Dr. Gunna, Birgis Þórarinssonar og Andra Sigurðssonar sem efndi til mótmælanna og meðal þeirra sem tekið hafa til máls eru Hörður og Kolfinna.



MYND/Valli

Í fréttatilkynningu frá hópnum, sem kallar sig Nýir tímar - Vertu þátttakandi, sagði að eina leiðin til að þjóðin héldi sjálfsvirðingu sinni nú væri að hún sameinaðist í fjölmennum mótmælum með ein skýr skilaboð til stjórnmálamanna. Skýr skilaboð um að þjóðin væri þátttakandi en ekki þolandi í þeirri atburðarás sem nú fari í hönd.

„Skýr skilaboð sem valdhafar geti brugðist við strax, að Davíð Oddssyni verði vikið úr starfi Seðlabankastjóra," sagði í tilkynningunni. Hann bæri ábyrgð á því að íslensku bankarnir hefðu verið einkavæddir og hleypt í útrás með veikburða eftirlitskerfi. Síðan hefði hann stillt sér upp til að fylgjast með þeim sem seðlabankastjóri án faglegar þekkingar.

Fjölmargir héldu á kröfuspjöldum þar sem krafist var afsagnar seðlabankastjóra og sömuleiðis að eftirlaunalögin yrðu afnumin.













Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×