Enski boltinn

Ferguson vonsvikinn

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson var eilítið vonsvikinn með jafnteflið sem hans menn í Manchester United gerðu við Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag. United hafði forystu fram á lokamínútur leiksins þegar Salomon Kalou náði að jafna fyrir heimamenn.

Chelsea hafði ekki tapað á heimavelli í 84 deildarleikjum í röð og hefði með sigri í dag geta náð 9 stiga forystu á United í töflunni.

Kóreumaðurinn Park kom United yfir eftir 18 mínútur þegar gestirnir voru mun sterkari aðilinn á vellinum. Ferguson var ósáttur við að liðið hefði ekki náð að bæta við öðru marki.

"Við byrjuðum leikinn einstaklega vel og réðum gjörsamlega ferðinni. Það hefði vissulega verið sterkt að ná að bæta við í stöðunni 1-0. Svo minnkaði hraðinn hjá okkur talsvert og það leyfði Chelsea að komast inn í leikinn á ný," sagði Ferguson og kenndi um leikformi sumra af leikmönnum sínum.

"Við erum enn með leikmenn sem eru að reyna að komast í form - menn eins og Hargreaves, Park, Ronaldo og Neville og það er ekki auðvelt fyrir þá að spila svona leik. Mér fannst við misnota gott tækifæri í dag og ég held að ef liðið hefði verið í betri leikæfingu, hefðum við verið í góðum málum," sagði Ferguson í samtali við Sky.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×