Innlent

Stjórnarformaður Nýja Kaupþings breytir ekki launum bankastjórans

Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri.
Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri.
Stjórnarformaður Nýja Kaupþings segist ekki ætla að breyta launakjörum bankastjórans, þrátt fyrir gagnrýni. Upplýst hefur verið að laun Finns Sveinbjörnssonar, nýráðins bankastjóra, eru 1950 þúsund krónur á mánuði. Litlu hærri en laun útvarpsstjóra, sem hingað til hefur verið hæst launaði forstjóri ríkisfyrirtækis. Stjórnendur Nýja Glitnis og Nýja Landsbankans hafa ekki viljað upplýsa um laun bankastjóranna.

Bæði félagsmálaráðherra og viðskiptaráðherra hafa gagnrýnt þessi laun og sagt að þau þurfi að endurskoða. Þessu er Ólafur Hjálmarsson, stjórnarformaður Nýja Kaupþings, ósammála. „Við erum náttúrulega búin að gera ráðningasamning við nýjan bankastjóra og munum standa við hann," segir Ólafur. Hann bendir á að það sé ekki auðvelt að fá menn, við svona erfiðar aðstæður, í svona krefjandi starf.

Ólafur segir að þrátt fyrir að launin séu ef til vill frábrugðin því sem gerist hjá embættismönnum að þá séu þessi launakjör ekki frábrugðin því sem gerist hjá öðrum ríkisfyrirtækjum. „Og þá eru menn að tala um hlutafélög í eigu ríkisins," segir Ólafur. Hann bendir á að inni í launum bankastjórans séu öll hlunnindi hans og fríðindi.

Ólafur segir að stjórn Kaupþings sé sjálfstæð og beri ábyrgð á eigin störfum. „Ég get ekki haft neina skoðun á því sem að stjórnmálamenn eru að segja um þetta," segir Ólafur. Hann segir ekki koma til greina að breyta samningum sem hafi verið gerðir við bankastjórann. „Þá frekar mun ég bara taka mína ábyrgð," segir Ólafur í samtali við Vísi.




Tengdar fréttir

Há laun nýju bankastjóranna koma á óvart

„Það kom mér á óvart hvað laun bankastjóranna eru há, þó ég hafi ekki enn heyrt um laun bankastjóra Landsbanka og Glitnis. En fréttir af launum Kaupþingsbankastjórans benda til þess að þau séu hærri en búist var við,“ segir Björgvin Guðni Sigurðsson viðskiptaráðherra um laun nýju bankastjóranna.

Félagsmálaráðherra vill lækka laun nýrra bankastjóra

Jóhanna Sigurðardóttir segist vera þeirrar skoðunar að of langt hafi verið gengið við ákvörðun um kjör nýrra bankastjóra. Ekki síst þegar kjararýrnun er framundan. Hún segist hafa viljað sjá að þar hefði verið farið varlegar af stað en raun ber vitni nú þegar þörf sé á að gæta hófs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×