Enski boltinn

Platini gagnrýnir erlent eignarhald enskra úrvalsdeildarfélaga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michel Platini, forseti UEFA.
Michel Platini, forseti UEFA. Nordic Photos / AFP

Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, gagnrýnir mjög að mörg félög í ensku úrvalsdeildinni eru í eigu erlendra aðila.

Alls eru níu félög í deildinni sem falla í þann flokk, þeirra á meðal West Ham sem er í eigu Björgólfs Guðmundssonar.

„Ef fólk kemur frá Katar til félaganna í Liverpool og Manchester, hvar er þá Liverpool og Manchester," sagði Platini. „Mér finnst þetta ekki gott. Ég held að fjárfestar frá Katar ættu að halda sig við sitt eigið land."

„Þeir ættu að fjárfesta í knattspyrnu í sínu eigin landi. Er eitthvað sem við getum gert vegna þess? Ég mun reyna að gera það," bætti hann við.

„Vilja menn að arabískur fursti verði forseti Liverpool, með brasilískan þjálfara og níu eða ellefu leikmenn frá Afríku? Hvar er Liverpool í þeirri jöfnu? Við verðum að setja einhverjar reglur."

„Menn verða að hafa sín einkenni. Það er ástæðan fyrir vinsældum knattspyrnunnar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×