Íslenski boltinn

Magni Fannberg næstur á blaði hjá HK-ingum?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Úr leik hjá HK-ingum í sumar.
Úr leik hjá HK-ingum í sumar.

Torfi Ólafur Sverrisson, formaður hjá HK, vildi hvorki játa né neita þegar Vísir spurði hann að því hvort Magni Fannberg væri í viðræðum við félagið um að taka við sem þjálfari meistaraflokks félagsins.

Samkvæmt heimildum vefsíðunnar Gras.is er Magni næstur á blaði HK-inga. „Við erum búnir að breyta kerfinu hjá okkur og nú fara öll samskipti við fjölmiðla fram í gegnum nýjan fjölmiðlafulltrúa okkar. Ég mun því ekkert tjá mig um þetta," sagði Torfi.

Nýr fjölmiðlafulltrúi HK er Óli Þór Júlíusson. „Þetta er ekki rétt. Þið megið samt endilega halda þetta mín vegna," sagði Óli en hann gat ekki gefið upp við hvern félagið væri í viðræðum. „Ég veit bara jafnmikið og þú þessa stundina," sagði Óli.

Magni Fannberg er nú þjálfari hjá Fjarðabyggð í 1. deildinni en Bjarni Ólafur Birkisson, formaður Fjarðabyggðar, segist ekkert hafa heyrt af málinu. „Magni var náttúrulega hjá HK svo þessar sögusagnir koma mér ekki á óvart. Ég hef hinsvegar ekkert heyrt í Magna og ekki heldur í HK-ingum," sagði Bjarni.

Vísir hefur ekki náð í Magna Fannberg sjálfan. Magni er 29 ára og var aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki Grindavíkur þegar Sigurður Jónsson þjálfaði liðið 2006. Þar áður starfaði hann við þjálfun yngri flokka hjá HK en í fyrra var hann yfirþjálfari yngri flokka hjá Val.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×