Erlent

Vilja flýta breytingum á reglum um ferðatryggingar vegna falls Sterling

MYND/AP

Jafnaðarmenn í Danmörku þrýsta nú á dönsku ríkisstjórnina að leggja fram frumvarp um að ferðatryggingasjóður dekki allar tegundir ferða.

Eftir því sem Berlingske Tidende greinir frá hafa þúsundir Dana tapað fjármunum á því að Sterling varð gjaldþrota en hópurinn átti bókað far með vélum félagsins.

Samkvæmt núgildandi lögum tryggir ferðatryggingasjóður í Danmörku aðeins pakkaferðir en ef fólk kaupir flug og gistingu hvort í sínu lagi er það aðeins tryggt að hluta ef ferðaskrifstofa fer á hausinn. Þessu vilja jafnaðarmenn breyta og segjast sjálfir munu leggja fram frumvarp í næstu viku þessa efnis ef ríkisstjórnin bregðist ekki við. Það mun hins vegar ekki breyta því að fjölmargir tapa fjármunum á falli Sterling.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×