Innlent

Í skoðun að breyta gjaldeyrislögunum

MYND/365

„Erlendir fjárfestar ætluðu flestir að fjármagna uppbyggingu okkar á næsta ári með hlutafé að langmestu leyti. Það er bannað samkvæmt gjaldeyrislögunum nú eins og ég skil þau," segir Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður Verne Holdings.

Félagið er í eigu Novators, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar og bandaríska fjárfestingarsjóðsins General Catalyst Partners, sem hefur fjárfest nokkuð hér á landi.

Verne Holdings er langt komið með uppbyggingu á alþjóðlegu gagnaveri á gamla varnarliðssvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Fjárfestingin hljóðar upp á tuttugu milljarða króna á næstu fimm árum.

Þorsteinn segir menn enn vera að átta sig á gjaldeyrislögunum og reglum þeim tengdum og hafi hann rætt við bæði lögfræðinga og fjárfesta vegna þessa. „Okkur sýnist ekki önnur leið í málinu en sú að sækja um undanþágu. Það er ekki þægilegt því bandarískum fjárfestum finnst óþægilegt að leggja mikla peninga í verkefni sem er upp á náð og miskunn hins opinbera. Þeir óttast að undanþágan geti verið afturkölluð."

Samkvæmt gjaldeyrislögunum, sem samþykkt voru á Alþingi aðfaranótt föstudags í síðustu viku, felst að viðskipti á milli innlendra og erlendra aðila með verðbréf og aðra fjármálagerninga sem gefin eða gefnir hafa verið út í íslenskum krónum sé óheimil. Erlendum aðilum sé óheimilt að kaupa fyrir milligöngu innlendra aðila verðbréf sem gefin hafa verið út í krónum.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, segir ólíklegt að lögin hamli fjárfestingu erlendra aðila hér. Markmið þeirra sé að skrúfa tímabundið fyrir útflæði gjaldeyris. Málið verði endurskoðað fljótlega, jafnvel fyrir mars á næsta ári. „Við munum ræða við þá aðila sem hafa áhyggjur. Ef atriði eru í lögunum sem samræmast ekki tilganginum er ekkert því til fyrirstöðu að fá lögunum breytt," segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×