Lífið

Getur leigt kjólföt fyrir tæpar 10 þúsund krónur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Brúðarkjólaleiga Katrínar getur bjargað Grétari um kjólföt fyrir morgundaginn.
Brúðarkjólaleiga Katrínar getur bjargað Grétari um kjólföt fyrir morgundaginn.
Þeir sem hafa fengið boð um að vera viðstaddir embættistöku Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á morgun en eiga ekki kjólföt, hafa kost á því að leigja þau. Kjólföt eru til leigu á flestum betri brúðarkjólaleigum landsins gegn hóflegu gjaldi.

DV greindi frá því í dag að Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, hygðist ekki vera viðstaddur innsetningu forsetans í embætti vegna þess að karlmönnum væri gert að klæðast kjólfötum við athöfnina. „Mér er boðið að vera viðstaddur en ég ætla hins vegar ekki að fara að fjárfesta í kjólfötum sem aðeins verða notuð á fjögurra ára fresti," segir Grétar Mar í DV.

Hjá Brúðarkjólaleigu Katrínar eru fötin leigð á 9900 krónur. Starfsmaður hjá brúðarkjólaleigunni segir þó, í samtali við Vísi, að ekki séu miklar líkur á því að Grétar Mar geti fengið kjólfötin sér að endurgjaldslausu fyrir athöfnina á morgun. „Nei, það held ég ekki. Verður hann ekki að borga eins og aðrir?" spyr Elsa, sem starfar á brúðarkjólaleigunni. Hún bætir því þó við að hún sé einungis starfsmaður í afgreiðslu og ráði því í raun engu um þetta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.