Innlent

Geir segir atvinnuleysistölur vera uggvekjandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nýjustu tölur varðandi atvinnuleysið eru uggvekjandi, segir Geir H. Haarde forsætisráðherra. Atvinnumálin voru til umræðu á ríkisstjórnarfundi í morgun. „Og við höfum verið að ræða með okkur hvernig hægt er að bregðast við þessu í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og við munum kynna áætlanir von bráðar," segir Geir. Hann útilokar ekki að það verði í dag eða á morgun.

Hann segir mjög mikilvægt að atvinnureksturinn í landinu geti gengið svo fólk geti haldið störfum sínum. „Sum fyrirtæki eru að segja upp fólki í varnaðarskyni til að vera búinn því versta ef það skellur á, en önnur fyirtæki eru verr stödd. En við munum gera allt sem við getum til að hjálpa til í því að draga úr atvinnuleysi sem nú er og við erum með ýmislegt til athugunar í því efni," segir Geir.

Geir bendir á að fyrr í þessum mánuði hafi verið frestað gjalddögum á staðgreiðslu og verið sé að kortleggja hvernig frekar sé hægt að koma til móts við almenning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×