Innlent

Hugmyndir um sameiningu bankanna fjarstæðukenndar

Forsætisráðherra skaut föstum skotum á Björgólf Thor Björgólfsson athafnamann á aðalfundi LÍÚ í dag og sagði hugmyndir hans um sameiningu bankannan hafa verið fjarstæðukenndar.

Geir sagði að farið hefði verið út í afar sársaukafullar aðgerðir til þess að lágmarka skaða samfélagsins vegna fjármálakreppunnar, kreppu sem ekki ætti sinn líka síðastliðin 80 ár. Þá sagði hann óheppilegt ef einhverjir gerðu því skóna að ríkisstjórnin hefði ekki unnið að heilindum í málinu.

Það væri þó skiljanlegt að menn bentu á aðra en sjálfa sig. Sagði Geir það þekkt að einstaklingar sem yrðu gjaldþrota kenndu bankanum sínum um þar sem þeir hefðu ekki fengið meira fé. Á sama hátt kenndu bankar Seðlabanka sínum um hið sama. Enn fremur sagði hann að á sama hátt og bankar yrðu einhvern tíma að setja niður fótinn gagnvart viðskiptavinum sínum þyrftu Seðlabankar einhvern tíma að gera það.

Unnið hefði verið myrkranna á milli að því að reyna að leysa vanda bankanna áður en að fallinu kom og ýmsar hugmyndir skoðaðar. Margar þeirra hefðu falið í sér að ríkið yrði leggja fram tugi eða hundruð milljarða og jafnframt að þeir sem hefðu lagt fram hugmyndirnar myndu þá bjargast.

Hann sagði mikið hafa verið rætt um hugmynd Landsbankans sem lögð var fram daginn áður en ríkið tók yfir Glitni í lok september. Fram kom í máli Björgólfs Thors Björgólfssonar í Kompási á mánudag að forsvarsmenn Landsbankans hefðu þá lagt til að Glitnir, Landsbankinn og Straumur sameinuðust og ríkið keypti þriðjungshlut í sameinuðum banka fyrir 200 milljarða króna. Landsbankinn myndi eignast tvo þriðju hlutafjár og en hlutahafar Glitnis ekkert. „Það lá fyrir að þessar hugmyndir voru fjarstæðukenndar og gengju ekki upp og mönnum var sagt það þótt þeim væri ekki sent skriflegt svar," sagði Geir um tilboðið.

Þá skaut hann föstu skotum á Björgólf: „Ummæli þeirra sem nú koma fram og gagnrýna af mikill hörku verður að meta í því ljósi að þar bera menn saman þá niðurstöðu sem varð við atburðarás sem ekki varð. Sá samanburður er hagstæðari fyrir þann sem dregur hana upp en segir ekki alla söguna," sagði Geir.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×