Innlent

Seðlabankinn hefur tapað allt að 150 milljörðum

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segir óhjámkvæmilegt að bankastjórn Seðlabankans axli ábyrgð og víki, ekki vegna þess að menn séu að leita að sökudólgum heldur þurfi að endurskipuleggja stjórn og starfsemi bankans í ljósi efnahagskreppunnar. Þetta kom fram í máli þingmannsins í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Þá kom fram í máli forsætisráðherra að Seðlabankinn hefði hugsanlega tapað hátt í 150 milljörðum á endurhverfum viðskiptum við fjármálafyrirtæki landsins.

Helgi vísaði til frétta í síðustu viku af því að Seðlabankinn hefði orðið fyrir tjóni í viðskiptum sínum við fjármálafyrirtæki í landinu. Spurði hann forsætisráðherra hvort vitað væri hversu mikið tjónið væri, hvort það lægi í tugum eða hundruðum milljarða króna.

Enn fremur vísaði hann til ræðu forsætisráðherra í gær um að Alþingi myndi koma með nýtt fé inn í Seðlabankann vegna efnahagsbreytinganna og spurði Helgi einnig hversu mikið það myndi verða. Enn fremur benti hann á að þegar mikið tjón yrði og miklir fjármunir töpuðust væri óhjákvæmilegt að spyrja hverjir ættu axla ábyrgð. Þegar viðskiptabankarnir hefðu fallið hefðu nýir bankastjórar verið ráðnir inn og sömu leikreglur yrðu að gilda um Seðlabankann. Vísaði hann enn fremur til þess að fjórir stjórnmálaflokkar á Alþingi teldu að endurskipuleggja ætti yfirstjórn Seðlabankans með fagleg sjónarmið að leiðarljósi.

Seðlabankinn ekki sekur um afglöp

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði Seðlabankann ekki vera að fara í þrot með sama hætti og viðskiptabankarnir. Þess hefði verið krafist fyrr á árinu að hann lánaði fjármálafyrirtækjum fé í endurhverfum viðskiptum og hefði bankinn fengið veð á mót. Nú væri komið á daginn að mun minni verðmæti væru falin í veðbréfum viðskiptabankanna eftir að þeir fóru í þrot og Seðlabankinn yrði fyrir miklu tapi. Geir sagði töluna ekki liggja fyrir en það skipt þó tugum milljarða eða jafnvel allt að 150 milljörðum. Eigið fé Seðlabankans hefði verið um 90 milljarðar og því væri ljóst að ríkið þyrfti að leggja bankanum til eigið fé og þar kæmi Alþingi til sögunnar. Sagði Geir slíkt gert þannig að ríkið gæfi út skuldabréf og legði inn í bankann og þannig myndaðist skuld ríkisins við bankann.

Helgi sagðist með spurningum sínum ekki vera að gagnrýna trúmennsku forsætisráðherra við bankastjórn Seðlabankans. Ef 150 þúsund milljónir hefðu hins vegar tapast væri óhjákvæmilegt að bankastjórnin axlaði ábyrgð. Hér væri ekki verið að leita að sökudólgum heldur þyrftum við að endurskipuleggja stjórn og starfsemi bankans.

Geir ítrekaði að endanleg tala um tjón Seðlabankans lægi ekki fyrir. Hann sagði enn fremur að bankinn hefði ekki gerst sekur um afglöp heldu hefði hann var að reyna að hjálpa viðskiptabönkunum með því að lána þeim eins og aðrir seðlabankar hefðu gert.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×